Innlent

Rúmlega 770 fengu íslenskan ríkisborgararétt í fyrra

Alls fengu 772 íslenskt ríkisfang á síðasta ári eftir því sem fram kemur í vefriti dómsmálaráðuneytisins.

Dómsmálaráðherra veitti 566 þeirra ríkisborgarrétt á grundvelli 7. greinar laga um um íslenskan ríkisborgararétt og Alþingi veitti 33 slíkan rétt. 173 fengu ríkisborgararétt samkvæmt öðrum greinum laganna.

Flestir þeirra sem fengu íslenskt ríkisfang eru fæddir í Póllandi, eða 159 talsins, 70 komu frá Filippseyjum og 41 frá Taílandi. Þá leiða tölur dómsmálaráðuneytisins í ljós að flestir hinna nýju ríkisborgara eru á aldrinum 30-39 ára eða 196. Börn undir tíu ára aldri voru 104.

Af þeim 173 sem fengu ríkisfang samkvæmt öðrum greinum laganna má nefna 22 börn sem voru ættleidd af íslenskum foreldrum og 46 fullorðna sem fengu endurveitingu íslensks ríkisborgararéttar og 14 börn þeirra. Þá fékk 41 barn sem á íslenskan föður en erlenda móður og er fætt erlendis ríkisborgararétt á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×