Innlent

Útlán Íbúðalánasjóðs ekki meiri í einum mánuði í fjögur ár

Guðmundur Bjarnason er framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Guðmundur Bjarnason er framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs. MYND/E.Ól

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í júlí námu ríflega 8,7 milljörðum króna, en þar af voru tæplega 6,9 milljarðar vegna almennra útlána og tæpir 1,9 milljarðar vegna leiguíbúðalána.

Fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs að útlánin hafi aukist um 75 prósent frá fyrra mánuði og um 38 prósent frá sama tíma í fyrra. Hafa útlán sjóðsins ekki verið meiri í einum mánuði síðan í júní 2004. Hins vegar eru heildarútlán sjóðsins það sem af er árinu um 33 milljarðar króna sem er 13 prósenta samdráttur frá sama tímabili í fyrra.

Íbúðalánasjóður hefur endurskoðað áætlanir sínar fyrir árið í kjölfar aðgerða sem ríkisstjórin greip til um miðjan júní sem ætlað var að blása lífi í húsnæðismarkaðinn. Þannig var hætt að miða við brunabótamat og þess í stað miðað við 80 prósent af markaðsvirð við veitingu lána og þá hækkuðu hámarkslán úr 18 milljónum króna í 20.

Fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs að gert sé ráð fyrir að sjóðurinn láni 9-11 milljörðum króna meira en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Jafnframt gerir áætlunin ráð fyrir að útgáfa íbúðabréfa verði aukin um 10-12 milljarða frá fyrri áætlunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×