Innlent

Segir verðbólguástandið skelfilegt

Tólf mánaða verðbólga mælist nú 11,8 prósent samkvæmt útreikningum Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs. Síðustu þrjá mánuði hefur vísitalan hækkað um 6,4 prósent sem jafngildir 28 prósent verðbólgu á ári.

Verðbólgan er nú tæplega fimmfalt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans þrátt fyrir mikla hækkun stýrivaxta. Ljóst er að þessi hækkun mun hafa verulega áhrif á skuldsettustu heimilin í landinu. Í síðasta mánuði jukust verðtryggðar skuldir heimilanna um 20 milljarða vegna verðbólgu - ef tekið er mið af hækkun vísitölu milli mánaða.

Sé þessari hækkun dreift jafnt á öll heimili í landinu skuldar hvert hemili að meðaltali um 155 þúsund krónum meira í dag en fyrir mánuði. Þökk sé verðbólgunni.

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambandsins, segir ástandið vera skelfilegt. „Maður sér fyrir að það unga fólk sem hefur verið að kaupa íbúðir á síðustu árum er á þráðbeinni leið í meiri háttar vanda sem samfélagið þarf að takast á við," sagði Grétar. Kjarsamningar verða endurskoðaðir í byrjun næsta árs en Grétar segir útlitið vera svart. „Það er ekki einu sinni kraftaverk að forsendur haldi. Það reynir annaðhvort á endurskoðunina eða uppsögn, það er deginum ljósara."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×