Erlent

Spenna í Trípólí vegna átaka vopnaðra hópa

Mikil spenna ríkir í hafnarborginni Trípolí í Líbanon eftir skotbardaga milli vopnaðra hópa í gær og fyrradag.

Hermenn gæta nú friðarins í Trípolí en það róar ekki íbúa borgarinnar. Herinn hefur ekki sýnt mikinn mátt í skærum vopnaðra hópa í landinu undanfarna mánuði.

Átökin sem blossuðu upp á sunnudag voru á milli alavítahóps sem styður Hisbollah-samtök sjíamúslima og hóps súnnímúslima sem styður stjórn Fuads Siniora. Níu menn hafa fallið og fimmtíu særst.

Vonir stóðu til að slík átök væru að baki eftir að stríðandi fylkingar skrifuðu undir samkomulag um breytingar á stjórnskipan landsins nýlega. En Siniora hefur gengið illa að mynda þjóðstjórn, eins og samkomulagið gerði ráð fyrir, og vopnaðir hópar í landinu eru farnir að ókyrrast.

Samkvæmt samkomulaginu verður kjördæmaskipan landsins endurskoðuð á næstu mánuðum og kosið á ný á næsta ári. En á meðan ekki tekst að halda aftur af byssumönnum eru allar slíkar áætlanir í uppnámi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×