Innlent

Fimmtán ára stúlka á spítala eftir e-töflu neyslu

Fimmtán ára stúlka var flutt alvarlega veik á sjúkrahús eftir að hafa tekið inn e-töflur á Dönskum dögum í Stykkishólmi um helgina. Að sögn Ólafs Guðmundssonar, yfirlögregluþjóni á Snæfellsnesi, fluttu lögreglumenn stúlkuna á spítala um leið og ljóst var hvað hafði gerst.

„Hún var á spítalanum vel fram á næsta dag en fór svo eftir því sem ég best veit í fylgd með móður sinni heim af spítalanum," segir Ólafur.

Að sögn Ólafs lék grunur á að stúlkan hefði fengið efnið frá annarri stúlku á svipuðum aldri. Leitað hafi verið á henni með aðstoð fíkniefnahunds, en hún hafi harðneitað að hafa afhent henni þessar töflur.

Ólafur segir að hið minnsta þrjú þúsund manns hafi verið á hátíðinni. Nú sé flest fólkið farið og lögreglan sé byrjuð að skrifa skýrslur og fara yfir mál sem hafi komið á borð lögreglunnar.

Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem Danskir dagar eru haldnir hátíðlegir en þeir voru mun erilsamari fyrir lögreglu nú en áður. „Hún kom á óvart þessi hátíð. Þetta er kannski ekkert mikið miðað við Þjóðhátíð eða einhverja þrjátíu þúsund manna Fiskidaga, en í samhengi við Danska daga er þetta óvenju mikið," segir Ólafur. Hann segir að hingað til hafi verið lagt upp með að þessi hátíð væri bara fyrir brottflutta.

Ólafur segir hins vegar að það sé villandi að draga ályktanir út frá því að fangageymslur hafi fyllst. Það séu einungis þrír klefar í Stykkishólmi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×