Vísir heldur áfram óvæginni tvífaraleit sinni. Skemmst er að minnast þess er Gísli Marteinn Baldursson og hinn japanski Joseph Yam voru spyrtir saman og tvífarar dagsins í dag eru ekki síður líkir - jafnvel líkari.
Það eru engir aðrir en borgarráðsformaðurinn Óskar Bergsson og stórleikarinn Willem Dafoe sem ritstjórn Vísis ruglast gjörsamlega á að þessu sinni. Óskar er fæddur árið 1961 en Dafoe 1955. Það er því skammt á milli þeirra í árum talið.
Báðir lögðu þeir stund á háskólanám, Óskar í rekstrarfræði en Dafoe í leiklist og varla þarf að fara mörgum orðum um það að störf beggja fela í sér mikil almannatengsl og samskipti. Þá má ekki gleyma því að Willem Dafoe hefur í tvígang hlotið tilnefningu til hinna nafntoguðu Óskarsverðlauna en Óskar þarf ekki að tilnefna, hann er Óskar.
Að öðru leyti látum við myndirnar tala sínu máli.