Innlent

Gifti, skírði og jarðaði í óþökk kirkjunnar

Andri Ólafsson skrifar
Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson

Gunnar Björnsson, sóknarprestur á Selfossi, sem settur hefur verið í leyfi vegna ásakana um kynferðisbrot, hefur verið minntur á að honum er óheimilt að framkvæma kirkjulegar athafnir í Selfosskirkju á meðan hann er í leyfi.

Gunnar fékk þessa áminningu eftir að í ljós kom að hann hafi gift, skírt og grafið fólk eftir að hann var settur í leyfi vegna þeirra alvarlegu ásakana sem á hann eru bornar.

Biskupsstofa hafði farið fram á það við Gunnar þegar hann var settur í leyfi að hann framkvæmdi ekki athafnir.

Hann varð hins vegar ekki við því og framkvæmdi fyrrnefndar athafnir í óleyfi.

Eftir að Guðbjörg Jóhannesdóttir var settur sóknarprestur í Selfosskirkju, í fjarveru Gunnars, fékk hún athugasemdir við að Gunnar væri að framkvæma athafnir í kirkjunni.

Athugasemdirnar voru á þá leið að kirkjan væri að gefa þau skilaboð að hún liti ásakanirnar á hendur Gunnari ekki nógu alvarlegum augum.

"En sú er alls ekki raunin. Við tökum þessar ásakanir mög alvarlega," segir Guðbjörg. Hún bætir því hins vegar við að Gunnar sé saklaus uns sekt hans er sönnuð.

Hann hafi verið beðinn ýmist um að gifta, skíra eða jarða safnaðarbörn sem hann hafi lengið þjónað og hann hafi orðið við því.

"Ég ákvað hins vegar eftir að hafa rætt við vígslubiskupinn í Skáholti, að senda Gunnari bréf þar sem það er áréttað að honum er ekki heimilt að framkvæma athafnir á meðan hann er í leyfi."

Gunnar Björnsson hefur ekki svarað bréfinu né gert við það athugasemdir og lítur Guðbjörg svo á að málinu sé lokið.

Fimm stúlkur hafa kært séra Gunnar Björnsson fyrir kynferðislega áreitni og blygðunarsemisbrot. Stúlkurnar voru sóknarbörn hans og sumar þeirra virkar í starfi kirkjunnar. Þær voru á unglingsaldri þegar meint brot voru framin.

Gunnar Björnsson er erlendis. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×