Erlent

Gríðarleg áhrif leiðtogafundar í fátækustu löndunum

Þótt árangur af leiðtogafundi iðnríkjanna í Japan í síðustu viku hafi ekki verið mikill, er útlit fyrir að ákvarðanir þeirra geti haft gríðarleg áhrif þar sem síst skyldi - í fátækustu löndum heims.

Leiðtogarnir ákváðu að verja sex milljörðum Bandaríkjadala, eða andvirði 450 milljarða íslenskra króna, til að aðstoða fátækum löndum að takast á við loftslagsbreytingar. Þótt þetta virðist gott og göfugt við fyrstu sýn er annað uppá teningnum, því þessa peninga á að taka úr sjóðum sem ríku löndin hafa hingað til notað til þróunarhjálpar í þriðja heiminum.

Hver dollar sem fer í umhverfismálin þýðir að það er dollar minna til heilsugæslu og menntunar í þriðja heiminum, er haft eftir forustumanni hjá bresku hjálparsamtökunum Oxfam.

Leiðtogar annarra öflugra ríkja, sem sátu hluta G-8 fundarins í Japan, það er að segja Kína, Indlands, Brazilíu, Mexíkó og Suður-Afríku, gáfu út sína eigin yfirlýsingu þar sem þess var krafist að nýtt fjármagn yrði fundið til að bregðast við loftslagsvandanum í stað þess að færa úr einum vasa í annan.

Oxfam bendir á 450 milljarðar í baráttuna gegn skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga, séu eins og dropi í hafið. Samtökin minna á að áætlaður kostnaður í Eþíópíu einni væri 60 milljarðar. Eþíópía er meðal ríkja í austanverðri Afríku sem glíma við banvæn áhrif loftslagsbreytinga. Uppskera sjálfsþurftabænda á þeim slóðum hefur dregist verulega saman á undanförnum árum - og heilsugæsla í strjálbýli er víða óþekkt fyrirbæri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×