Erlent

Hvetja til stillingar í Suður-Ossetíu

Ekki liggur fyrir hversu margir hafa fallið í átökunum í Suður-Ossetíu.
Ekki liggur fyrir hversu margir hafa fallið í átökunum í Suður-Ossetíu. MYND/AP

Evrópusambandið, Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið hvöttu í dag deilendur í Georgíu og Suður-Ossetíu til þess að leggja strax niður vopn og hefja þess í stað viðræður.

Eins og fram hefur komið í dag hafa hörð átök verið á milli georískra hermanna og uppreisnarmanna úr röðum Suður-Osseta sem berjast fyrir sjálfstæði héraðsins. Rússar hafa skorist í leikinn og sendu hersveitir inn í höfuðborg Suður-Ossetíu, Tshkvinvali, eftir að Medvedev Rússlandsforseti sagðist myndu verja hét því að verja samlanda sína í héraðinu. Um 90 prósent íbúa í Suður-Ossetíu eru með rússneskt ríkisfang. Fregnir berast nú af því að rússneskir hermenn hafi þegar náð hluta af Tshkinvali og að hermenn Georgíu hafi hörfað.

Reyna að miðla málum

Í tilkynningu frá Atlantshafsbandalaginu sagði að framkvæmdastjóri þess fylgdist náið með framvindu mála og hvetti alla aðila til að leggja niður vopn.

Þá sagði talsmaður Javiers Solana, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, að ráðamenn þar hefðu miklar áhyggjur af ástandinu og sagði að binda þyrfti enda á átökin. Greindi hann enn fremur frá því að Solana myndi ræða við bæði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Eka Tkeshelashvili, utanríkisráðherra Georgíu.

Talsmaður Hvíta hússins greindi frá því að Bush Bandaríkjaforseti og Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, hefðu rætt ástandið en þeir voru báðir viðstadddir opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking í dag.

Deilan er nokkuð snúin því Georgíumenn hafa í auknum mæli leitað samstarfs við vestur og meðal annars sóst eftir aðild að Atlantshafsbandlaginu. Það líkar Rússum illa en þeir hafa í auknum mæli ýjað að stuðningi við sjálfstæðiskröfu Suður-Ossetíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×