Innlent

Guðni varaði við hvalveiðum þegar hann var ráðherra

MYND/GVa

Guðni Ágústsson hefur gagnrýnt afstöðu Samfylkingarinnar í hvalveiðimálinu harðlega. Hann sagði í fréttum RÚV í gær að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hafi gert Ísland að athlægi á alþjóðavettvangi með yfirlýsingu sinni á dögunum. Ingibjörg hefur sagt að allir ráðherrar flokks síns leggist gegn áframhaldandi hvalveiðum í atvinnuskyni þrátt fyrir að sjávarútvegsráðherra hafi heimilað veiðarnar.

Guðni sagði að hans flokkur hafi stutt hvalveiðar þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn en í viðtali á RÚV árið 2006 sagðist hann hafa varað við veiðunum og sagt að menn yrðu að vera tilbúnir til að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Á heimasíðu Samfylkingarinnar rifja menn upp orð Guðna þegar hann var landbúnaðarráðherra en í desember árið 2006 sagðist hann í viðtali við RÚV hafa varað samráðherra sína við því að taka ákvörðun um hvalveiðar sem tekin var þá um haustið. Guðni segist hafa sagt félögum sínum í ríkisstjórn að „menn verði að vera tilbúnir til að fórna minni hagsmunum fyrir meiri". Þar átti hann við að markaðir fyrir íslenskar landbúnaðarvörur í Bandaríkjunum gætu skaðast vegna hvalveiðanna. Það kom raunar á daginn og ákvað Whole Foods verslunarkeðjan að hætta að hampa vörum sem íslenskum vegna hvalveiðanna.

Í viðtalinu var Guðni spurður hvort hann vildi að hvalveiðum yrði hætt sagðist hann ekki ætla að fjalla um það í fjölmiðlum, heldur í ríkisstjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×