Viðskipti erlent

Óttast að draga muni úr einkaneyslu í Bandaríkjunum

Gengi hlutabréfa lækkaði almennt talsvert á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag. Um er að kenna hagnaðartöku fjárfesta auk þess sem fjárfestar eru uggandi um horfur í efnahagsmálum. Óttast er að neytendur vestanhafs muni halda að sér höndum og draga úr einkaneyslu á næstunni til þess að komast leiðar sinnar í ökutækjum þrátt fyrir síhækkandi olíuverð.

Bandarískt hagkerfi er mjög knúið áfram af einkaneyslu og getur samdráttur hennar haft mikil áhrif á bandaríska hagvísa.

Hráolíuverð lækkaði hins vegar nokkuð í dag, fór úr hæstu hæðum, 135 dölum á tunnu, og endaði í 132,19 dölum.

Á móti veiktist bandaríkjadalur gagnvart helstu gjaldmiðlum í dag og dró það nokkuð úr spákaupmennsku með svartagullið.

Olíuverðið snerti mjög við gengi flug- og rekstrarfélaga vestanhafs sem eiga mikið undir lágu olíuverði. Þannig hefur gengi bréfa í UAL Corp., móðurfélagi United Airlines, fallið um tæp 46 prósent í vikunni, í Continental Airlines um tæp 27 prósent og í AMR, móðurfélagi American Airlines, eins stærsta flugfélags landsins, um 25 prósent.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,16 prósent og Nasdaq-vísitalan um 0,81 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×