Innlent

Júlíus Vífill formaður stjórnar Skákakademíu Reykjavíkur

Júlíus Vífill Ingvarsson er stjórnarformaður Skákakademíu Reykjavíkur
Júlíus Vífill Ingvarsson er stjórnarformaður Skákakademíu Reykjavíkur

Reykjavíkurborg, Landsbankinn, Mjólkursamsalan og Orkuveita Reykjavíkur undirrituðu í dag stofnsamning að Skákakademíu Reykjavíkur og lögðu til hennar stofnhlutafé upp á 20 milljónir króna.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að með akademíunni eigi að byggja upp skákíþróttina í höfuðborginni með sérstakri áherslu á skóla borgarinnar og þá á hún að styðja við taflfélögin í Reykjavík. Enn fremur verður árlega haldin Skákhátíð Reykjavíkur þar sem hápunktur vikunnar verður Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið sem héðan í frá verður haldið árlega en ekki á tveggja ára fresti eins og verið hefur frá 1964.

„Skákvakningin á Íslandi á síðustu árum, hin ríka skákhefð okkar og sú velvild sem skáklistin nýtur valda því að nú er raunhæft að keppa að því að Reykjavík verði Skákhöfuðborg heimsins árið 2010," segir í tilkynningu borgarinnar.

Í stjórn Skákakademíu Reykjavíkur sitja: Júlíus Vífill Ingvarsson, sem verður formaður, Svandís Svavarsdóttir, Árni Emilsson, Karl Stefánsson, Óttar Felix Hauksson, Róbert Harðarson og Gunnar Björnsson. Varamenn eru: Guðlaug Þorsteinsdóttir, Halldóra Traustadóttir, Helgi Árnason, Helgi Ólafsson og Lenka Ptacnikova.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×