Innlent

Dregur verulega úr vöruskiptahalla

MYND/GVA

Vöruskiptahallinn fyrstu fimm mánuði ársins nam 32 milljörðum króna sem er rúmum fimm milljörðum króna minna en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar. Fluttar voru út vörur fyrir nærri 151 milljarð króna á tímabilinu en inn fyrir tæpa 183 milljarða.

Þegar aðeins er horft til maímánaðar reyndist vöruskiptahallinn einungis hálfur milljarður en hann var 12,6 milljarðar á sama tíma í fyrra.

Fyrstu fimm mánuði ársins var verðmæti vöruútflutnings 2,2 milljörðum eða 1,5 prósentum meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 51,4% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 34,3% meira en árið áður. Sjávarafurðir voru 42,2% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,7% minna en á sama tíma árið áður.

Verðmæti vöruinnflutnings á sama tíma var 3,1 milljarði eða 1,7 prósentum minna á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur varð í innflutningi á flugvélum og fjárfestingarvöru en á móti kom aukning í innflutningi á hrá- og rekstrarvörum og eldsneyti og smurolíum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×