Innlent

Fagnar niðurstöðu um Bitruvirkjun en harma að ákvörðun sé ekki bindandi

Bergur Sigurðsson
Bergur Sigurðsson MYND/GVA

Landvernd fagnar þeirri niðurstöðu Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar á Hengilssvæðinu sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Hins vegar harma samtökin að álit stofnunarinnar sé ekki bindandi fyrir sveitarstjórnir.

Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir aðspurður að um ákveðinn áfangasigur sé að ræða en álitið sé ekki bindandi. „Þarna er staðfesting á því að þeir sem hafa talað gegn virkjuninni hafa haft mikið til síns máls," segir Bergur.

Áður fyrr kvað Skipulagsstofnun upp úrskurð sem var bindandi en með lagabreytingum gefur stofnunin nú aðeins álit sem ekki er bindandi. Bergur bendir á að þótt álitið sé leiðbeinandi þurfi aðilar að færa fyrir því rök ef þeir gangi gegn því.

Hann bendir á að Skipulagsstofnun hafi fyrir nokkrum misserum lagst gegn malartöku í Ingólfsfjalli en Sveitarfélagið Ölfuss engu að síður veitt framkvæmdaleyfi. „Röksemdarfærslan var að mínu mati afar bágborin og það eru ekki gerðar nægilega ríkar kröfur til rökstuðnings þegar gengið er gegn áliti Skipulagsstofnunar," segir Bergur.

Bergur vonast til að þetta dugi til þess að sveitarstjórn Ölfuss sjái að sér. Ef það veiti hins vegar framkvæmdaleyfi sé sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×