Erlent

Vilja skaðabætur vegna sambandsleysis í Basel

SB skrifar
Þetta var það eina sem þýskir áhorfendur sáu í nokkrar mínútur þegar útsendingin rofnaði.
Þetta var það eina sem þýskir áhorfendur sáu í nokkrar mínútur þegar útsendingin rofnaði.
UEFA gæti þurft að borga sjónvarpsstöðvum í Evrópu himinháar skaðabætur vegna mistaka sem ollu því að útsendingin rofnaði í miðjum undanúrslitaleik Þýskalands og Tyrklands. Íslenskir áhorfendur misstu af tveimur mörkum.

Yfirmaður íþróttadeildar ZDF í Þýskalandi kallaði tæknibilunina "mest pirrandi bilun sem hægt er að hugsa sér!" Tugmilljónir áhorfenda misstu af tveimur mörkum þegar þrumuveður olli rafmagnsleysi í Vín. Vararafstöð bilaði og þar með datt merkið út og áhorfendur sáu ekkert nema vandræðalega þuli sem vissu ekki sitt rjúkandi ráð.

Fyrirfram var búist við því að leikurinn myndi slá áhorfsmet í Þýskalandi. Yfir 30 milljónir voru límdar við sláinn. Nikolaus Brender, yfirmaður hjá ZDF, segir að áhorfið hafi snarlækkað þegar útsendingin rofnaði.

Samtals greiddi ZDF ásamt sjónvarpsstöðinni ARD 115 milljónir Evra fyrir sjónvarpsréttinn á EM. Í grein Der Spiegel um málið kemur fram að samtals hafi UEFA fengið greiddar 800 milljónir Evra fyrir sjónvarpsréttinn frá 180 löndum.

Áhorfendur í Þýskalandi voru heppnari en við hér á frónni. ZDF gat notað merkið frá ríkissjónvarpinu í Sviss sem naut undanþágu frá útsendingu UEFA. Þannig misstu þýskir áhorfendur ekki af neinum mörkum en hljóð og mynd voru ekki samstillt.

Það segja þýskir áhorfendur þó skárra en að sjá ekkert yfir höfuð.

"Þetta var röð af óheppilegum tilviljunum," sagði Alexandre Fourtoy, yfirmaður tæknideildar UEFA. "Við hörmum að þetta átti sér stað."

UEFA hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að mistökin muni ekki endurtaka sig á sunnudaginn þegar úrslitaleikurinn fer fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×