Innlent

Dæmdur fyrir að ráðast á lögregluþjón og reyna að stela lögreglubíl

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa slegið lögregluþjón og reynt að stela lögreglubifreið. Þá var hann sektaður um 280 þúsund krónur og sviptur ökuleyfi í fjögur ár fyrir ölvunarakstur.

Forsaga málsins er sú að í október árið 2005 var lögregla kvödd að húsi í Njarðvík þar sem maðurinn var. Þar reyndist hann blóðugur og var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Maðurinn var ölvaður og var í framhaldinu fluttur á lögreglustöð. Eftir að hann hafði fengið að fara á salernið og á leiðinni þaðan út kýldi hann lögreglumann í andlitið og hljóp inn í bílageymslu lögreglunnar og reyndi að aka lögreglubíl út úr henni en staðnæmdist á bílageymsluhurðinni.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og fór fram á sýknu á þeim grundvelli að hann hefði verið óábyrgur gerða sinna. Hann hefði skömmu áður en þetta gerðist verið á viku löngum drykkjutúr og verið veikur í viku þar á eftir. Fyrir dóminum taldi hann sig eiga í geðrænum erfiðleikum án þess þó að hann hefði verið lagður inn á geðdeild síðan umrædd atvik gerðust. Út frá framburði læknis taldi dómurinn hins vegar að maðurinn væri sakhæfur og var hann því sakfelldur.

Maðurinn hafði áður komist í kast við lögin og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Einnig var horft til þess hve mikill dráttur hafði á rannsókn og ákvörðun um saksókn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×