Innlent

Álið skilar meira en fiskurinn

Heimir Már Pétursson skrifar

Miklar breytingar hafa orðið á hlutfalli áls í þjóðarbúskapnum. Undanfarna tvo mánuði hefur útflutningur á áli skilað meiri tekjum en fiskafurðir. Í maí var flutt út ál fyrir 17,7 milljarða króna samkvæmt upplýsingum í morgunkroni Glitnis.

Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu er áætlað að ál verði 45 prósent af útflutningi þessa árs en sjávarútvegur 35 prósent. Mest munar um að álverið á Reyðarfirði er nú komið í full afköst og svo fæst hátt verð fyrir ál þessi misserin.

Í fyrra voru flutt út 446.406 tonn af áli sem gáfu 80,3 milljarða, eða tæp 180 þúsund á tonnið. Samkvæmt nýjustu tölum um erlenda ferðamenn frá árinu 2007 komu 485.000 ferðamenn til landsins og voru gjaldeyristekjur af þeim 57 milljarðar eða um 117 þúsund á hvern ferðamann.

Það má því segja að hver ferðamaður sé jafn verðmætur og 65 prósent af áltonninu. Nú er mikið rætt um kosti og galla álvera og mörgum finnst að meiri áherslu megi leggja á aðrar atvinnugreinar svo sem eins og ferðamannaþjónustu, þar sem vöxturinn hefur líka verið mikill undanfarin ár.

Ef áætlanir ganga eftir er reiknað með að álframleiðslan tvöfaldist og flutt verði út um 770 þúsund tonn á þessu ári að verðmæti um 160 milljarðar. Aukningin er rúm 323 þúsund tonn. Til að jafna útflutningsverðmæti þessarar aukningar með erlendum ferðamönnum, þyrti þeim að fjölga um ríflega hálfa milljón miðað við fjölda þeirra og gjaldeyristekjur af þeim árið 2007. Þá yrði fjöldi ferðamanna tæp milljón á þessu ári.

Miðað við sömu forsendur þyrftu 240 þúsund ferðamenn að koma til landsins til að jafna tekjur af 150 þúsund tonna álveri í Helguvík. Hér er eingöngu miðað við beinharðar tekjur en ekki tekið tillit til hversu mörg störf og fleira hver atvinnurgein skapar. Til að mynda er ekki tekið tillit til allrar eyðslu erlendra ferðamanna í tölum um tekjur af þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×