Innlent

Telur Óskar hafa svikið samkomulag minnihluta

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, telur að Óskar Bergsso-n, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hafi svikið það samkomulag minnihlutans í borginni að taka ekki þátt í þeim vinnubrögðum sem sjálfstæðismenn viðhafi.

Dagur var gestur í Íslandi í dag í kvöld og þar greindi hann frá því að Óskar hefði hringt rétt fyrir útsendingu Íslands í dag og tjáð honum að hann stefndi að myndun meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.

Aðspurður hvort hann hefði boðið Ólafi til meirihlutasamstarfs í Tjarnarkvartettinum neitaði Dagur því en sagði að minnihlutinn hefði rætt hvort hægt væri að mynda Tjarnarkvartettinn á ný á fundi sínum í morgun. Það hefði þýtt að Ólafur F. Magnússon hefði þurft að stíga til hliðar.

Ólafur og hans menn hefðu verið að fara yfir það en vegna þess að framsóknarmenn hafi ekki treyst sér til þess að segja að Tjarnarkvartettinn væri fyrsti kostur hjá þeim þá viti hann ekki hvort samstarfið hafi komið til alvarlegrar skoðunar hjá Ólafi F. Magnússyni.

Dagur minnti á að minnihlutinn hefði við myndun meirihluta Sjálfstæðisflokks og F-lista dregið línu í sandinn og sagst ekki vilja innleiða klækjastjórnmál. Aðspurður hvort Óskar væri að svíkja minnihlutann svaraði Dagur: „Hann er að svíkja í raun það að taka ekki þátt í þessu leikriti sem Sjálfstæðisflokkurinn er að setja á svið í raun í þriðja skiptið."

Gengur ekki að skrifa upp á svona vinnubrögð

Dagur telur að sjálfstæðismenn hafi í tvígang brotið prinsipp í stjórnmálum, annars vegar í samskiptum sínum við Björn Inga Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, og hins vegar með samstarfinu við Ólaf.

„Ég held undiraldan í borginni, kannski innan Framsóknarflokksins, og reiðin snúist að því að það hljóti allir að átta sig á að ef við viljum stöðugleika og festu við stjórn borgarinnar þá gengur ekki að skrifa upp á svona vinnubrögð. Það gengur ekki að í stað þess að stjórnmálamenn glími við viðfangsefnin sem eru á borðinu að þá hlaupi þeir alltaf til og skipti um samverkafólk," sagði Dagur.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×