Innlent

Enn bið á vegaúrbótum

Til stendur að bjóða út fyrsta áfanga í tvöföldun Suðurlandsvegar næsta vor en leiðin milli Selfoss og Hveragerðis verður þó látin bíða.

Segja má að Sunnlendingar hafi beðið ein 46 ár eftir tvöföldun Suðurlandsvegar. Fyrsta áætlun um tvöföldun vegarins varð til árið 1962, í tíð Ingólfs Jónssonar landbúnaðar- og samgönguráðherra.

Krafa um úrbætur hefur gerst æ háværari, hugmyndum um svokallaðan tveir plús einn veg hefur verið sópað af borðinu og Kristján L. Möller núverandi samgönguráðherra tekið af öll tvímæli um að byggður verði fjögurra akreina vegur.

Nú fara á bilinu sex til níu þúsund bílar milli Reykjavíkur og Selfoss á degi hverjum. Frá árinu 1972 hafa sextíu og þrír látið þar lífið í umferðarslysum.

Í fyrsta áfanga er um að ræða leiðina frá Hólmsá ofan Reykjavíkur að Hveragerði þar sem sjö mislæg gatnamót munu rísa.

Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um fjármögnun og hönnun, en sú vinna er í gangi. Gera má ráð fyrir að verkið verði boðið út í fyrsta lagi næsta vor, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni og að framkvæmdir standi yfir í um tvö ár.

Suðurlandsvegur er um fimmtíu kílómetra langur en enn er á huldu hvenær ráðist verður í að tvöfalda hættulegasta vegarkaflann, rúma tólf kílómetra milli Hveragerðis og Selfoss þar sem flest banaslys og alvarleg umferðarslys hafa orðið í seinni tíð.

Af þeim fimm banaslysum sem hafa orðið á Suðurlandsvegi frá því í fyrra hafa þrjú orðið á þessum kafla.

Ástæða þess að ekki verður ráðist í hann fyrst er einfaldlega sú, að sögn Vegagerðarinnar, að skipulagsvinnan þar sé flóknari og tímafrekari.

Sýslumaðurinn á Selfossi vill að hámarkshraði á vegarkaflanum milli Selfoss og Hveragerðis verði lækkaður úr 90 kílómetrum á klukkustund í sjötíu. Þessir rúmu tólf kílómetrar eru hættulegasti vegarkaflinn á Suðurlandsvegi þar sem flest alvarlegustu umferðarslysin hafa orðið.














Tengdar fréttir

Suðurlandsvegur opnaður á ný eftir slys

Búið er að opna Suðurlandsveg á ný en veginum var lokað eftir alvarlegt umferðarslys á móts við Kirkjuferju á milli Hveragerðis og Selfoss um hálftíu í morgun.

Alvarlega slasaðir eftir bílslys

Alvarlegt umferðarslys varð á Suðurlandsvegi á móts við Kirkjuferju á milli Hveragerðis og Selfoss um klukkan hálfttíu.

Haldið sofandi í öndunarvél eftir bílslys

Einum þeirra sem slösuðust í alvarlegu bílslysi á Suðurlandsvegi á móts við Kirkjuferju á milli Hveragerðis og Selfoss um klukkan hálfttíu í morgun er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild. Þrír voru fluttir á slysadeild í Reykjavík eftir slysið, en hinir tveir eru ekki alvarlega slasaðir, að sögn vakthafandi læknis á slysadeild Landspítalans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×