Innlent

Arkþing vann í samkeppni um hönnun óperuhúss

Tillaga arkitektastofunnar Arkþings ehf. varð hlutskörpust í samkeppni um hönnun óperuhúss í Kópavogi. Dómnefnd samkeppninnar leggur til að leitað verði samstarfs við hönnuði Arkþings ehf. um þróun og úrvinnslu verkefnisins eftir því sem segir í tilkynningu Kópavogsbæjar.

Niðurstöður samkeppninnar voru kynntar í Salnum í dag og stóð val dómnefndar á milli tillagna Arkþings og ALARKS. Arkitektastofurnar tvær tóku þátt í framhaldssamráðskeppni um hönnun óperuhússins í samræmi við tillögu dómnefndarinnar frá 31. mars sl. en hún taldi að fyrirliggjandi tillögur fullnægðu ekki markmiðum samkeppninnar.

„Er það einróma álit dómnefndarinnar að höfundar hafi lagt sig fram um að vinna úr ábendingum dómnefndar og að báðar tillögurnar séu vel unnar og höfundum þeirra til sóma," segir m.a. í áliti dómnefndarinnar.

„Þetta er eitt skref áfram af mörgum en þó mikilvægt skref," segir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og formaður dómnefndarinnar, í tilkynningunni. „Menningarþjóð verður að koma þaki yfir þessa listgrein svo að sómi sé að og næst á dagskrá er að koma óperuhúsinu í skipulagsferli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×