Erlent

Hillary vann stórsigur og segir baráttunni hvergi lokið

Hillary Clinton vann öruggan sigur í forkosningunum í Vestur-Virginíu eins og spáð hafði verið. Þegar þrír-fjórðu atkvæða höfðu verið talin var Hillary með 66% á móti 27% hjá Barak Obama

Strax og meirihluti atkvæða hafði verið talinn og ljóst í hvað stefndi sagði Hillary Clinton að baráttu hennar fyrir útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins væri hvergi nærri lokið.

Margir fréttaskýrendur hafa haldið því fram að Hillary væri um það bil að gefast upp þar sem barátta hennar virðist vonlaus og kosningasjóðir hennar eru tómir.

Þótt sigur Hillary væri sannfærandi voru aðeins 28 kjörmenn í boði í ríkinu. Til að fá útnefningu flokksins þarf 2025 kjörmenn. Obama hefur þegar tryggt sér 1.876 á móti 1.703 kjörmönnum Hillary.

Í ræðu sem Hillary hélt í nótt sagðist hún vera ákveðnari en áður að halda baráttu sinni áfram allt til enda.

Obama hafði samband við Hillary í nótt og óskaði henni til hamingju. Að öðru leyti hefur hann ekkert tjáð sig um úrslitin en þessa stundina beinir hann öllum spjótum sínum að John McCain eins og að barátta þeirra um forsetaembættið sé þegar hafin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×