Erlent

Fimm börn létust í 7,8 stiga skjálfta í Kína

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Fólk flykkist skelfingu lostið út á götur í Chengdu, höfuðborg Sichuan-héraðs
Fólk flykkist skelfingu lostið út á götur í Chengdu, höfuðborg Sichuan-héraðs MYND/AP/Xinhua

Fimm börn týndu lífi og yfir 100 slösuðust í snörpum jarðskjálfta sem reið yfir Sichuan-hérað Kína í morgun. Mældist skjálftinn 7,8 stig á kvarða Richters en til samanburðar mældist jarðskjálfti á Suðurlandi 17. júní árið 2000 6,5 stig. Háar byggingar sveigðust í skjálftanum í Kína og fólk forðaði sér skelfingu lostið út á götur.

Xinhua-fréttastofan segir tvær byggingar er hýstu barnaskóla hafa hrunið í Chongqing, sem er í nágrenninu en íbúar þar eru um 30 milljónir. Urðu slysin þar.

Allt símasamband rofnaði á skjálftasvæðinu og fannst jarðskjálftinn í Bangkok, höfuðborg Taílands, sem er 3.300 kílómetra frá. Hu Jintao, forseti Kína, hefur skipað fyrir um að umfangsmiklum hjálparaðgerðum verði hrundið af stað þegar í stað.

Reuters-fréttastofan greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×