Innlent

Á þriðju milljón til Ellu Dísar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ella Dís Laurens hefur æ meiri ástæðu til að brosa breitt.
Ella Dís Laurens hefur æ meiri ástæðu til að brosa breitt.

„Þetta gengur alveg ótrúlega vel. Það voru komnar 2.380.000 krónur í morgun í 500 færslum svo viðbrögðin hafa verið alveg vonum framar," segir Ragna Erlendsdóttir, móðir Ellu Dísar Laurens sem þjáist af SMA, lífshættulegum taugahrörnunarsjúkdómi. Vísir hefur fylgt þeirri stuttu hvert fótmál síðan í haust og nú upp á síðkastið vakið athygli á söfnun fjár sem ætlað er að kosta dýra stofnfrumumeðferð í Kína í sumar.

Söfnunin hefur að mati Rögnu gengið vonum framar: „Já, algjörlega, núna erum við komin með fyrir meðferðinni svo þá er bara annar kostnaður eftir. Það er gott fólk sem stendur á bak við okkur," segir hún og bætir því við að fyrirhuguð ferð til Kína verði að líkindum farin í júní eða byrjun júlí.

Ragna segir dóttur sína káta eins og er. „Ég vona bara að það haldist þannig. Systir hennar er reyndar að fá eitthvert kvef og ég vona bara að hún fái það ekki," segir Ragna að skilnaði og er óskaplega þakklát öllum þeim er lagt hafa gjörva hönd á plóg og styrkt fjölskylduna.

Þeim sem áhuga hafa á að eiga þátt í því að gera líf Ellu Dísar bærilegt er bent á reikninginn 0525-15-020106, kt. 020106-3870.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×