Innlent

Kjaradeila hjúkrunarfræðinga til ríkissáttasemjara

Elsa B. Friðfinnsdóttir er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Elsa B. Friðfinnsdóttir er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. MYND/Vilhelm

Samningaviðræðum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Er það gert eftir að kjaraviðræður silgdu í strand í gær en þær höfðu staðið frá því um miðjan síðasta mánuð. Gildandi kjarasamningur rennur út á miðnætti.

Hjúkrunarfræðingar vilja gera skammtímasamninga í ljósi stöðu efnahagsmála en það vill samninganefnd ríkisins ekki. Trúnaðarmenn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hittast í dag á skrifstofu félagsins og fara yfir stöðu samningamála.

Hjúkrunarfræðingar eru ekki eina háskólamenntaða stéttin hjá ríkinu sem hefur vísað deilu sinni við samninganefnd ríkisins til ríkissáttasemjara. Samninganefnd HugGarðs og Ljósmæðrafélags Íslands ákvað í gær að gera hið sama en þar er einnig ágreiningur um samningstíma. Aðildarfélög HugGarðs eru: Félag íslenskra fræða - kjaradeild, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga og Útgarður, félag háskólamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×