Innlent

Geir vill að 21. öldin verði öld Sameinuðu þjóðanna

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti í dag ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Á heimasíðu Stjórnarráðs Íslands segir að í ræðunni hafi Geir fjallað um baráttuna gegn sárri fátækt í heiminum, mikilvægi sjálfbærrar þróunar og aðgerða vegna loftlagsbreytinga. Einnig lagði hann áherslu á virðingu fyrir mannréttindum, þar með talið réttindum kvenna.

„Þá fjallaði forsætisráðherra um nauðsyn umbóta innan Sameinuðu þjóðanna og kvatti í því samhengi til átaks í menntun um tilgang og starfssemi samtakanna. Loks gerði forsætisráðherra grein fyrir framboði Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna," segir á stjórnarráðsvefnum.

Í niðurlagi ræðunnar sagðist Geir vonast til þess að aðildarþjóðir bæru gæfu til þess að beita Sameinuðu þjóðunum á þann hátt á komandi árum að sagnfræðingar framtíðarinnar geti kallað 21. öldina, öld Sameinuðu Þjóðanna.

Ræðuna má nálgast í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×