Viðskipti erlent

Nokia fellur á hlutabréfamörkuðum

MYND/AFP

Hlutabréf í Nokia féllu í verði um tæp fimm prósent eftir að Texas Instruments, annar stærsti framleiðandi örflaga í farsíma, lækkaði áætlanir fyrir hagnað og tekjur fyrir fyrsta ársfjórðung.

Fram kemur í hálffimmfréttum Kaupþings að forvígismenn Texas Instruments hafi sagt að pantanir á örflögum sem notaðar eru í símtæki, sem m.a. hala niður tónlist, yrðu minni en vænst hefði verið. Lásu fjárfestar tilkynninguna með þeim hætti að Nokia, sem stærsti viðskiptavinur Texas Instruments, væri á bak við afkomuviðvörunina.

Við þetta bættist að þýski bankinn NRW Bank, banki í eigu þýska sambandslýðveldisins Nordrhein-Westfalen, hefur krafið Nokia um yfir sex milljarða króna endurgreiðslu á láni sem félagið fékk frá bankanum þegar það byggði verksmiðju í Bochum. Verksmiðjunni hefur verið lokað.

Bent er á að Nokia hafi hækkað um 70 prósent á hlutabréfamarkaði í fyrra en hins vegar hefur félagið fallið um 23 prósent það sem af er þessu ári, þar af um fimmtung á tveimur vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×