Lífið

Dr. Gunni bruggar rótarbjór

„Já já, þetta er uppáhalds drykkurinn minn,“ segir Gunnar Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni, en fjórir lítrar af rótarbjór þroskast nú í sérmerktum plastflöskum á heimili hans. Gunna var fært rótarbjórs-þykkni að gjöf, en hann hefur hingað til sérpantað flöskur af drykknum frá Bandaríkjunum. Það er aftur dýrt spaug. Drykkurinn , sem er óáfengur, kostar þá á milli 400 og 500 krónur á flöskuna kominn til landsins.

Rótarbjór er afar vinsæll í Bandaríkjunum og eru fjölmargar gerðir hans framleiddar þar. Hann var upprunalega framleiddur úr ysta lagi róta Sassafras trésins, en henni var skipt út fyrir aðra rót upp úr 1960, þegar upp komst að efni í berkinum væru krabbameinsvaldandi. Ýmis efni eru notaðar til að gefa bjórnum bragð, meðal annars kanill, vanilla, mólassi og wintergreen. Sú jurt er líklega ábyrg fyrir tyggjóbragði sem Gunni segir einkenna drykkinn.

„Miklum meirihluta Íslendinga finnst þetta gífurlega vont. Eins og tannkrem á bragðið," segir Gunni, sem telur ekki að framleiðsla drykksins væri ábatasöm hér á landi. „Þetta er rakin leið til að fara á hausinn," segir Gunni.

Doktorinn hefur lagt vinnu í heimaframleiðsluna, og meðal annars hannað miða á flöskurnar. Hann hefur þó ekki mikla trú á bragðgæðum drykkjarins, sem ætti að vera tilbúinn á föstudaginn. „Þetta er væntanlega ódrekkandi. Þessu verður bara hellt í glas og vonað það besta."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.