Lífið

Mistök í Gettu betur...aftur?

Breki Logason skrifar
Páll Ásgeir Ásgeirsson höfundur spurninga og dómari í Gettu Betur.
Páll Ásgeir Ásgeirsson höfundur spurninga og dómari í Gettu Betur.

Menntaskólinn á Akureyri sigraði Menntaskólann við Hamrahlíð 25-24 í æsispennadi keppni í Gettu betur í gærkvöldi. Keppnin var fyrri viðureign undanúrslita þessarar vinsælu spurningakeppni. Akureyringar svöruðu 12 hraðaspurningum rétt en fengu 13 stig. Álita mál er hvort þau hafi fengið einu stigi of mikið.

„Engin athugasemd hefur borist mér vegna þessa máls. Ég vil því eðlilega fá að skoða þetta aftur áður en ég segi nokkuð um málið," segir Páll Ásgeir Ásgeirsson höfundur spurninga og dómari keppninnar.

Í hraðaspurningunum sem er fyrsti liður keppninnar er MA-ingum gefið eitt auka stig án nokkurra útskýringa. Sigmar Guðmundsson spyrill keppninnar segir hinsvegar að oft komi það upp að hann segi rangt þegar um rétt svar hafi verið að ræða. Í þessu tilviki hafi svo verið og því hafi stigi verið bætt við þegar farið var yfir rétt svör.

Akureyringum er síðan gefið rétt fyrir að svara því til að stærsti stjórnmálaflokkur Færeyja heiti Þjóðarflokkurinn en ekki Þjóðveldisflokkurinn, sem mun vera rétt heiti flokksins.

Sigmar segir hinsvegar að álitamál sé hvort Ma-ingar svari Þjóðar- eða Þjóðveldisflokkurinn, því erfitt sé að greina svar þeirra.

“Í keppninni og hita leiksins heyrum við báðir rétt svar og gefum stig fyrir það. Síðan á upptökunum eftir á er erfitt að heyra hvað þau segja, þar sem þau tala bæði í einu.”

Snorri Hallgrímsson liðsmaður Menntaskólans við Hamrahlíð hafði heyrt af málinu þegar Vísir náði af honum tali en hafði ekki horft aftur á keppnina. „Ég ætla ekki að erfa þetta við dómara keppninnar. Keppnin er búin og þau unnu. Ég vil því bara óska þeim tilhamingju með sigurinn og við munum ekkert gera í þessu máli," segir Snorri.

Svipað atvik kom upp í 8-liða úrslitum keppninnar nú í vetur þegar Menntaskólinn við Hamrahlíð sigraði Kvennaskólann í Reykjavík.

Þá lagði Kvennaskólinn fram kæru þar sem þeim var gefið rangt fyrir rétt svar. Páll Ásgeir viðurkenndi þá að um mistök hafi verið að ræða en í því væri ekkert að gera. Úrslitin úr þeirri viðureign stóðu.

Hægt er að horfa á umrædda keppni hér.

Þess má geta að seinni undanúrslitaviðureign keppninnar fer fram í beinni útsendingu Sjónvarpsins í kvöld. Þar mætast Menntaskólinn í Reykjavík og Borgarholtsskóli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.