Innlent

Frímúrarareglan fellur fyrir UNIFEM konum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Vigdís Finnbogadóttir er heiðursgestur kvöldsins.
Vigdís Finnbogadóttir er heiðursgestur kvöldsins. MYND/Valli
Á laugardagskvöldið verða í fyrsta sinn í sögu Frímúrarareglunnar á Íslandi einungis konur í matsölum reglunnar á Skúlagötu. Þá heldur UNIFEM á Íslandi fjáröflunarkvöldverð í tilefni af Fiðrildavikunni sem staðið hefur yfir og miðar að afnámi ofbeldis gegn konum í heiminum.

 

Hrund Gunnsteinsdóttir talskona Fiðrildavikunnar segir að um 250 konur verði á kvöldverðinum. Miðaverð er 70 þúsund krónur og rennur ágóðinn óskiptur til málefnisins. Þá verða einnig seld verk nokkurra listamanna í fjáröflunarskyni um kvöldið. Þeirra á meðal er málverk af fiðrildi eftir Eggert Pétursson sem metið er á eina milljón króna, síðkjóll hannaður af Steinunni Sigurðardóttur og listræn ljósmynd eftir Rebekku Guðleifsdóttur.

 

„Konur og fyrirtæki eru að bjóða systrum, vinkonum, ömmum og mæðrum með sér," segir Hrund og bætir við að konur ætli að fagna því hvað það er að vera kona; „Við viljum styrkja systralagið, standa með konum hinum megin á hnettinum."

 

Heiðursgestur kvöldsins er Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands. „Við erum svo stoltar af því sem hún stendur fyrir, auk þess vildi hún endilega borga miðann sinn sjálf til að láta gott af sér leiða," segir Hrund.

 

Auk Vigdísar eru sérstakir gestir kvöldsins Joanne Sandler aðalframkvæmdastýra samtakanna, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Olu Banke King-Akelere utanríkisráðherra Líberíu, en í landinu er við stjórnvölinn fyrsti lýðræðislega kjörn kvenforseti í Afríku. Hver króna skiptir máliStyrktarsjóður UNIFEM til afnáms ofbeldis gegn konum er eini sjóðurinn sinnar tegundar í heiminum. Í fyrra bárust 512 umsóknir frá 115 löndum um styrk úr sjóðnum. Einungis reyndist mögulegt að fjármagna sex prósent styrktarumsókna.

 

„Hver einasta króna skiptir máli," segir Hrund og bendir á mikilvægi landssöfnunarinnar sem nú stendur yfir. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu UNIFEM en helstu söfnunarsímanúmer eru 904-1000, 904-3000 og 904-5000.

 

Örmyndir um slæmar aðstæður kvenna í heiminum eftir þær Hrund og Kristínu Ólafsdóttur kvikmyndagerðarkonu verðar sýndar um kvöldið, en þær hafa verið sýndar í Kastljósi í vikunni.


Tengdar fréttir

Að verða frjáls eins og fiðrildi

Söfnunarátak UNIFEM fyrir konur í þremur stríðshrjáðum löndum hófst í gær undir yfirskriftinni Fiðrildavika. Fiðrildið, merki vonar og styrksins í mýktinni, hefur verið táknmynd fyrir umbreytingar í lífi fólks í átt til frelsis.

Fiðrildaganga UNIFEM í kvöld!

Í tilefni af Fiðrildaviku UNIFEM efna BAS og UNIFEM til FIÐRILDAGÖNGU miðvikudaginn 5. mars kl. 20:00. Gengið verður frá húsakynnum UNIFEM á mótum Frakkastígs og Laugavegs, niður á Austurvöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×