Innlent

Hjúskaparvottorð Fischers á leið til landsins

Hjúskaparvottorð Bobbys Fischer og Miyoko Watai er á leið til landsins og er væntanlegt eftir fáeina dag. Árni Vilhjálmsson, lögmaður Watai, staðfesti þetta í símtali við Vísi í dag.

Watai hefur síðan hún kom til landsins í síðustu viku aðeins haft ljósrit af hjúskaparvottorðinu undir höndum en til þess að ganga frá málum er varða dánarbú Fischer þarf hún hins vegar að framvísa frumriti.

Reynist vottorðið fullgilt er ljóst að Watai, en ekki tveir systursynir Fischers, mun erfa þær 140 milljónir króna sem skákmeistarinn lætur eftir sig. Samkvæmt íslenskum erfðarétti renna eignir og skyldur óskipt til maka ef hin látni lætur ekki eftir sig börn.

Nokkur óvissa hefur verið um lögmæti hjúskapar Fischers og Watai sérstaklega þar sem Fischer var alltaf fámáll um sína hagi. Það liggur hins vegur ljóst fyrir að ef hjónaband hans og Watai reynist ekki hafa verið lögformlegt rennur arfurinn til systursona hans.

Russel Targ, faðir þeirra og fyrrverandi mágur Fischers, hefur því tryggt sér lögfræðiþjónustu Guðjóns Ólafs Jónssonar til þess að tryggja að hjúskaparvottorðið sem Watai segir að sé á leiðinni sé ósvikið og að staðið verði vörð um hagsmuni sona sinna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×