Innlent

Uppsagnir standa hjá hjúkrunarfræðingum

Uppsagnir standa hjá svæfingar- og skurðhjúkrunarfræðingum og munu þær láta af störfum eins og til stóð 1. maí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hjúkrunarfræðingunum sem héldu fund í dag.

Í henni segir: „Ekkert hefur komið fram sem bendir til samningsvilja yfirmanna um að kvikað verði frá fyrirhuguðum breytingum á vaktafyrirkomulagi. Við vísum ábyrgð á því ástandi sem kann að skapast á hendur yfirmanna og heilbrigðisráðherra um leið lýsum við vantrausti á yfirstjórn LSH.

Skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar sjá sér ekki fært að halda áfram störfum undir þessum kringumstæðum þar sem við teljum að engöngu sé verið að fresta vandamálinu til 1. október." segir í yfirlýsingunni.

Stjórnendur Landspítalans geindu frá því í gær að þeir hygðust fresta fyrirhuguðum breytingum á vaktafyrirkomulagi fram á haust og reyna að leita sátta í málinu.

Vigdís Árnadóttir, trúnaðarmaður hjúkrunafræðinga, segir allt benda til þess að sá tæplega hundrað manna hópur sem boðað hafði uppsagnir vegna deilnanna standi við uppsagnirnar. „Við getum ekki svarað fyrir hvern og einn en við teljum að það er langstærsti hlut hópsins sem segi upp," segir Vigdís. Hún segir samskipti við yfirmenn spítalans hafa einkennst af trúnaðabresti og misvísandi skilaboðum og hjúkrunarfræðingar geti ekki haldið þessu áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×