Innlent

„Aldrei auðvelt að taka ákvörðun um ákæru“

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi.
Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segist ekki tjá sig um einstök mál við fjölmiðla. Í Fréttablaðinu í dag er hann sakaður um kaldlyndi af Helgu Jónsdóttur í lesendabréfi. Maður hennar var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hegningar- og umferðarlagabrot þrátt fyrir ítrekaðar óskir Helgu um að falla frá ákæru.

Sýslumaður segir aldrei auðvelt að taka ákvörðun um að ákæra en hann bendir á að dómur hafi gengið í málinu auk þess sem farið hafi verið fram á allra vægustu refsingu.

Málavextir eru þeir að Helga varð fyrir því í maí í fyrra að lenda í hörðum árekstri á Suðurlandsvegi. Hún var farþegi í bílnum ásamt þriggja mánaða dóttur sinni og maður hennar var við stýrið. Helga slasaðist einna mest og þurfti að gangast undir endurhæfingu í kjölfarið.

Maður hennar slasaðist einnig en dóttirin slapp ómeidd og það gerði ökumaður hins bílsins einnig. Hálfu ári síðar var manni Helgu birt ákæra fyrir að valda henni tjóni. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Helgu til að fá sýslumann til að falla frá ákæru báru þær ekki árangur og féll dómur í málinu þann 15. apríl síðastliðinn og var maðurinn dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, sagðist ekki tjá sig um einstök mál, þegar Vísir hafði samband við hann. Hann benti þó á að málið hefði fengið sína meðferð og að dómur hafi gengið.

„Það er aldrei auðvelt að taka ákvörðun um ákæru," segir Ólafur Helgi. „Hvert og eitt mál er metið en auk þess þarf að gæta að samræmi,"sagði hann og bætti því við að ákæra sé aldrei geðþóttaákvörðun sýslumanns.

„Í þessu tilviki gerði ég ekki kröfu um ökuleyfissviptingu og ég ítreka að svona ákvörðun er ekki tekin nema að vandlega íhuguðu máli. Það verður fyrst og fremst að gæta að því að sambærileg máli fái sambærilega meðferð, það er kjarni málsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×