Innlent

Maður grunaður um gróft kynferðisbrot á Skagaströnd

Maður á sjötugsaldri situr nú í gæsluvarðhaldi á Akureyri, grunaður um gróft kynferðisbrot. Hann er sakaður um að hafa nauðgað konu á heimili sínu á Skagaströnd.

Málið er á rannsóknastigi og verst lögreglan frétta. Eftir því sem heimildir Stöðvar 2 herma átti hin meinta nauðgun sér stað á Skagaströnd síðastliðið þriðjudagskvöld, á heimili mannsins sem er á sjötugsaldri en konan er um þrítugt. Hermt er að maðurinn hafi verið drukkinn þegar hann kom fram vilja sínum.

Konan fór strax á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Sjúkrahúsi Akureyrar og var maðurinn handtekinn í kjölfarið. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald sem rennur út á morgun.

Daníel Guðjónsson yfirlögregluþjónn á Akureyri segir aðspurður að maðurinn hafi ekki áður komið við sögu lögreglu. Eitt af því sem menn bíða nú eftir og mun hafa áhrif á framvindu málsins eru niðurstöður úr þeim sýnum sem tekin voru á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×