Lífið

Páll Óskar stoltur af Serbíuförum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Páll Óskar í nettri sveiflu.
Páll Óskar í nettri sveiflu.

„Hjartað í mér er að springa úr stolti yfir íslensku keppendunum og ég held að öll þjóðin sé sammála mér um það að þau hafi gert þetta með þvílíkum glæsibrag," sagði Páll Óskar Hjálmtýsson í samtali við Vísi þegar hann var spurður út í söngvakeppnina í gær.

„Ég er afskaplega sáttur við frammistöðu Friðriks og Regínu, bakraddirnar voru æðislegar og eins myndvinnslan á atriðinu. Þetta var allt á sínum stað," sagði Páll enn fremur.

„Á hinn bóginn er þetta í fyrsta sinn í mörg ár sem ég er ekki ánægður með vinningslagið. Þetta er ákaflega hallærislegt lag og framsetningin á því líka. En þessi Rússi, Bilan, er alveg ofsalega stór poppstjarna í Rússlandi og hefur selt milljónir platna. Hann er svona Michael Jackson Austur-Evrópu og það vóg mjög þungt.

Það er engu líkara en þessi fyrrum Sovétríki væru að kjósa svolítið sinn mann burtséð frá gæðum lagsins. Ég hefði heldur viljað sjá Úkraínu eða Armeníustelpurnar vinna þennan gaur. Miklu betri lög og miklu betur flutt," sagði Páll og bætti því við að 14. sætið fyrir okkur Íslendinga væri eitthvað sem við gætum verið stolt af, 14. sæti af 43 væri bara alls ekki svo slæmt.

Hann kvaðst þó mest hissa á því að Portúgalar hefðu ekki komist ofar en í 13. sæti. Þeir hefðu hafnað í 2. sæti í síðari undankeppninni en svo farið sem raun bar vitni. „Þetta var eina lagið sem ég fékk raunverulega gæsahúð yfir," sagði Páll.

„Það lítur út fyrir að úrslitin hafi ekki haft nein áhrif á þjóðina. Það var Eurovision-partý á NASA í gær og það var troðið út úr dyrum. Þannig að það er auðséð að við Íslendingar erum ekki meira þjakaðir af minnimáttarkennd en þetta," voru lokaorð Páls um gærkvöldið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.