Innlent

Sýknaður af ákæru um að hafa sveiflað öxi í miðbænum

Öxinni var sveiflað til móts við Prikið í miðbænum.
Öxinni var sveiflað til móts við Prikið í miðbænum. MYND/Pjetur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann af ákæru um að hafa borið og sveiflað öxi til móts við Prikið aðfaranótt 17. júní í fyrra.

Það var lögreglumaður sem var að skemmta sér niðri í bæ sem tilkynnti um manninn og þegar lögregla kom á vettvang var henni vísað að húsbíl þar sem ákærði sat. Hann neitaði sök en öxin fannst í húsbílnum og var maðurinn því handtekinn.

Fyrir dómi neitaði maðurinn sök og sagðist ekki hafa séð félaga sína úr húsbílnum handfjatla öxina. Dómurinn komst að því að ekki væri ástæða til þess að draga í efa að einhver hefði sveiflað öxi á þessum stað en óljóst væri hver hefði gert það. Ákærði hefði ekki verið einn á staðnum og lögreglu hefði láðst að skrá niður nöfn félaga mannsins, þar á meðal stúlku sem sat með honum inni í húsbílnum þegar hann var handtekinn.

Vegna þessara annmarka væri aðeins einn sjónarvottur að brotinu, lögreglumaðurinn sem hefði verið að skemmta sér, neytt áfengis og staðið hinum megin götunnar þegar atburðurinn var. Vegna neitunar mannsins stæði því orð gegn orði og því væri ekki komin fram sönnun fyrir því að hann hefði verið þarna að verki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×