Erlent

Verðlaun fyrir ólympíugull skömmtuð í Taílandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Frá lokahátíð Ólympíuleikanna í Aþenu 2004.
Frá lokahátíð Ólympíuleikanna í Aþenu 2004. MYND/Teitur Jónasson

Taílensk stjórnvöld bjóða þarlendum íþróttamönnum, sem verða fulltrúar landsins á Ólympíuleikunum í Peking í sumar, vegleg peningaverðlaun fyrir að ná verðlaunasæti. Hefur þeim verið heitið 10 milljónum batta, jafnvirði 24,8 milljóna króna, fyrir gullverðlaun, sex milljónum fyrir silfur og fjórum fyrir brons.

Sá háttur verður þó hafður á að helmingur verðlaunafjárins verður greiddur með afborgunum á 20 ára tímabili. Þessi ráðstöfun er til að sporna við því að íþróttamennirnir sói fénu gegndarlaust.

„Við greiðum þeim mánaðarlega. Flestir þeirra hafa reglu á fjármálum sínum en það hafa komið upp nokkur slæm tilfelli áður," sagði Charoen Wattanasin sem situr í taílensku ólympíunefndinni.

Ólympíuforkólfar í Taílandi ákváðu þetta fyrirkomulag eftir að íþróttamenn sóuðu á örskömmum tíma fúlgum fjár í spilavítum og villtu skemmtanalífi. Skemmst er að minnast hnefaleikakappans Manus Boonjumnong sem varð 47,6 milljóna króna verðlaunafé fátækari á mettíma með aðstoð veðhlaupa, knattspyrnugetrauna og flöskunnar.

Ófrísk eiginkona hans fór frá honum og þjálfarar hans sendu hann að lokum gjaldþrota úr landi ferli hans til bjargar. Boonjumnong keppir á ný á Ólympíuleikunum í Kína.

Reuters greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×