Innlent

Össur: Lagt af stað með skip sem þarf ekki sker til að steyta á

MYND/Anton

Skiptar skoðanir eru innan ríkisstjórnarinnar um nýjan meirihluta framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra sagðist fyrir ríkisstjórnarfund í morgun telja að breyta þyrfti sveitarstjórnarlögum og það væri lærdómurinn sem mætti draga af þróun mála í borginni. Þetta væri sagan endalaus og hún teldi að illa væri farið með borgarbúa.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sagði hins vegar aðspurður að sér litist vel á samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Hann taldi það ekki veikleika að Marsibil Sæmundardóttir, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, styddi ekki samstarfið.

Hann sagði fyrri meirihluta flokkanna í borginni hafa verið góðan og hafa gert margt gott. Guðlaugur sagði ljóst að vandræði hefðu verið í fráfarandi meirihluta borgarinnar en hann hefði engu að síður unnið að góðum verkum. Sagðist Guðlaugur sannfærður um að nýi meirihlutinn myndi starfa út kjörtímabilið.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra var öllu óhressari og sagði farsann í borginni halda áfram. „Það er lagt af stað með skip sem þarf ekki einu sinni sker til steyta á," sagði Össur. Hann tók þó fram að kjörnum fulltrúum bæri að koma á meirihluta og að því leyti skildi hann Óskar Bergsson, borgarfulltrúa Framsóknarfloksins, þótt Össur hefði viljað að Óskar ynni innan Tjarnarkvartettsins.

Um borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins sagði Össur að hann treysti því að þau myndu uppskera eins og þau hefðu sáð og talaði um vandræðagang og skort á forystu í þeirra röðum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×