Innlent

Hvalaskoðunarmenn í sjokki eftir ákvörðun ráðherra

Hvalskoðunarmenn eru í sjokki eftir að sjávarútvegsráðherra ákvað að leyfa veiðar á 40 hrefnum. Ákvörðunin er óskiljanleg, segir Hörður Sigurbjarnason, framkvæmdastjóri Norðursiglingar á Húsavík.

„Í versta falli getur þetta eyðilagt hvalaskoðun á Íslandi og ég veit það að á Faxaflóa, þar sem mest hefur verið veitt og jafnframt er mestur fjöldi hrefna, þá hefur þeim gengið illa að sjá hrefnur í vor," segir Hörður.

Norðursigling er helsta hvalaskoðunarfyrirtæki Húsvíkinga og veitir 30-50 manns atvinnu á hverju sumri. Menn séu hreinlega í sjokki núna. „Við erum búin að benda stjórnmálamönnum á það í mörg ár að þetta stofni hagsmunum hvalaskoðunar á Íslandi í stórhættu og við höfum þegar orðið vör við það að það hefur fækkað hrefnum sem við getum sýnt," segir Hörður enn fremur.

Hann segist engin skynsamleg rök sjá í ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar. Hann hefði haldið að það væri það síðasta sem Íslendingar þyrftu á að halda gagnvart ímynd landsins á alþjóðavettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×