Innlent

Rennibrautin í Laugardal opnuð innan viku

Breki Logason skrifar
Rennibrautin í Laugardalslaug hefur verið lokuð í mánuð en mun opna í næstu viku.
Rennibrautin í Laugardalslaug hefur verið lokuð í mánuð en mun opna í næstu viku. MYND/Stefán

Sundlaugargestir af yngri kynslóðinni hafa margir hverjir verið ósáttir með rennibrautarleysið í Laugardalnum. Rennibrautin sem orðin er tuttugu ára gömul hefur verið lokuð í rúman mánuð en sá tími er senn á enda. Logi Sigurfinnsson forstöðumaður Laugardalslaugarinnar vonast til þess að brautin opni í næstu viku. Von er á nýrri braut innan þriggja ára.

„Það stendur fyrir dyrum að endurnýja laugina að verulega leyti á næstu þremur árum. Brautin var byrjuð að gefa sig og krakkarnir voru að fá flísar í sig. Við ákváðum því að loka henni, fræsa hana, plasta og mála svo hún verði í lagi í eitt til tvö ár í viðbót," segir Logi sem á von á nýrri rennibraut innan næstu þriggja ára.

Hann segir að á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sé þegar búið að eyrnamerkja Laugardalslaug 800 milljónir í endurbætur og af þeim peningum fari eitthvað í nýja og glæsilega braut.

„Það var auðvitað hundleiðinlegt að þurfa að loka henni en hún var orðin hættuleg. Síðan hófst leit að mönnum sem gátu og höfðu tíma í að gera við hana. Hún hefur verið lokuð í rúman mánuð núna en það er verið að leggja lokahönd á þetta. Ef veðrið verður þurrt ætti þetta að vera tilbúið innan viku."

Logi segir krakkana hafa sýnt viðgerðinni ótrúlegan skilning en vissulega hafi lokunin dregið úr aðsókn enda sé rennibrautin eitt af því sem dregur krakkana í laugina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×