Innlent

Forlagið styrkir Réttindastofu sína

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jóhann Páll Valdimarsson.
Jóhann Páll Valdimarsson. MYND/Stöð 2

Töluverðar skipulagsbreytingar eru fyrirhugaðar á útgáfusviði Forlagsins á næstunni. Í fréttatilkynningu kemur fram að markmið breytinganna sé að styrkja starfsemi Réttindastofu Forlagsins og efla útgáfustarfsemi þess til að svara betur fjölbreyttri eftirspurn á íslenskum bókamarkaði.

Ýmsar breytingar á starfsliði Forlagsins eru orðnar eða væntanlegar. Oddný S. Jónsdóttir hefur tekið við ritstjórn kennslubóka sem Laufey Leifsdóttir sinnti áður en sú síðarnefnda færir sig nú alfarið yfir í umsjón vef- og orðabóka.

Þá tekur Hólmfríður Matthíasdóttir við málefnum Réttindastofu Forlagsins en hún á að baki langan feril við útgáfustörf erlendis, meðal annars á Spáni. Segir í tilkynningu Forlagsins að með þátttöku Íslands sem heiðursgests á bókastefnunni í Frankfurt árið 2011 gefist einstakt tækifæri til að nýta til fullnustu það sem því fylgi.

Að lokum er þess getið að Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur taki við starfi útgáfustjóra Máls og menningar 1. september næstkomandi en hún hefur auk annars haft með höndum ritstjórn Tímarits Máls og menningar undanfarin ár. Hyggist Silja byggja við sterkan útgáfulista innlendra höfunda og víkka sjóndeildarhringinn með nýjustu straumum og stefnum í erlendum bókmenntum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×