Innlent

Nýútskrifaður hundaþjálfari liður í hertu eftirliti í fangelsum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hin nýútskrifaða Elín Ósk Þórisdóttir ásamt hundinum Amigu.
Hin nýútskrifaða Elín Ósk Þórisdóttir ásamt hundinum Amigu. MYND/Halldór Valur Pálsson

Elín Ósk Þórisdóttir, fangavörður og hundaþjálfari, lauk grunnnámskeiði fíkniefnaleitarhunds og -þjálfara fyrir helgina. Um fjögurra vikna bóklegt og verklegt námskeið var að ræða og bættist hundurinn Amiga þar með í hóp fíkniefnaleitarhunda landsins.

Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins, segir aðdragandann að hertri fíkniefnaleit á Litla-Hrauni vera aukna fíkniefnaneyslu meðal fanga upp á síðkastið. „Þess vegna leitum við allra leiða til að draga úr og koma í veg fyrir streymi fíkniefna inn í fangelsið. Þetta gerum við með tvennum hætti, annars vegar með því að draga úr framboðinu, m.a. með því að fjölga þjálfuðum fíkniefnaleitarhundum, breyta reglum um heimsóknir til fanga og herða leit á og í munum sem berast inn í fangelsið," segir Páll.

Góður árangur á meðferðargangi

Hann segir hina leiðina vera að draga úr spurn eftir efnum og sé svokallaður meðferðargangur á Litla-Hrauni liður í þeirri viðleitni. Gangurinn hafi verið starfræktur í á sjöunda mánuð og hafi fjármagn til rekstrar hans verið tryggt út árið. Þessa þjónustu hafi alls 29 fangar nýtt sér og staðið sig með sóma. „Við heyrum það jafnframt frá meðferðarstofnunum og öðrum fangelsum sem svo taka við þessum föngum að fangarnir hafi tekið sig verulega á. Þarna er um að ræða fólk sem sumt hefur verið áratugi í neyslu fíkniefna," útskýrir Páll.

Hann tekur það fram að stærstur hluti aðstoðarinnar við fanga á meðferðargangi komi frá sálfræðingum og félagsráðgjöfum Fangelsismálastofnunar auk þess sem sérstakt heilbrigðisteymi á Litla-Hrauni komi að verkefninu.

„Auk þess má alls ekki gleyma því að stærsti þátturinn í þessu eru fangaverðirnir sem sinna föngunum. Þetta er það sem við köllum tilsjónarfangaverði. Þeir eru með föngunum allan daginn, fylgjast með framvindu og eru sérþjálfaðir í þessum málum," segir Páll og bætir því við að nú sé svo komið að þessi starfsþáttur fangavarðanna sé orðinn hluti af námi í Fangavarðaskóla ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×