Innlent

Orkusala til netþjónabús og kísilverksmiðju í Þorlákshöfn í salt?

Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar.
Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar.

Ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar þýðir að öllum líkindum að viðræður um orkusölu til netþjónabús og kísilhreinsunarverksmiðju í Þorlákshöfn verða settar í salt.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur kom saman til fundar í morgun til að ræða um hvernig brugðist yrði við því áliti Skipulagsstofnunar að Bitruvirkjun væri ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og áafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.

Niðurstaðan var einróma ákvörðun um að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar og stöðva frekari framkvæmdir. Ákvörðun um framhald Hverhlíðarvirkjunar verður hins vegar tekin að höfðu samráði við sveitarstjórnir eigenda Orkuveitu Reykjavík og Sveitarfélagsins Ölfuss sem hefur skipulag svæðisins með höndum.

Bitruvirkjun var ætlað að framleiða 135 megavött. Höggið verður sennilega mest fyrir Þorlákshöfn en fyrirtæki, sem áformar þar byggingu kísilhreinsunarverksmiðju, hugðist nýta orkuna af Hellisheiði til að framleiða kísil fyrir sólarrafhlöður. Fleiri atvinnuáform er einnig í uppnámi, þar á meðal hugmyndir um netþónabú í Þorlákshöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×