Innlent

Íslendingar henda mat fyrir 3,4 milljarða á ári

MYND/Vilhelm

Gera má ráð fyrir að að verðmæti þess matar sem Íslendingar henda á ári hverju sé um 3,4 milljarðar króna og að heildarsóun samfélagsins sé um átta milljarðar. Þetta kemur fram í nýtti könnun á neysluvenjum landans og viðhorfum hans til endurvinnslu.

Að könnuninni stóðu Sorpa, Sorpstöðvar Suðurlands, Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja , umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar, Neytendasamtökin, Landvernd og Félagsvísindastofnu Háskóla Íslands.

Könnun leiðir meðal annars í ljós að rúmlega sex af hverjum tíu telja sig geta samþykkt að þeir sói peningum en ástæðurnar eru mismunandi. Telja svarendur að meðaltali að matvara að verðmæti 811 krónur lendi í ruslinu í viku hverri, oftast kál eða salat.

Þá sýnir rannsóknin að Íslendingar eru jákvæðir gagnvart flokkun á sorpi en fimmtungur aðspurðra flokkar þó lítið sem ekkert. Fram kemur á heimasíðu umhverfis- og samgöngusviðs borgarinnar að út frá niðurstöðunum megi segja að Íslendingar séu meðalgóðir flokkarar. Flestir sem flokka telja sig vera að leggja sitt af mörkum til að draga úr mengun og sóun náttúruauðlinda. Aðrir líta á það sem borgaralega skyldu sína.

Bent er á að neysluvenjur íslenskra heimila og sá úrgangur sem þeim fylgja hafi lítið verið rannsakaðar. Rannsókninni var ætlað að kanna sóun Íslendinga og viðhorf þeirra til sóunar með því að biðja þá um að meta eigin sóun og ástæður hennar. Alls var þrjú þúsund manns sendur spurningalisti vegna rannsóknarinnar og bárust 1198 svör. Svarhlutfall reyndist 40 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×