Innlent

Bærinn ekki tekið lán í tíu ár

jónmundur guðmarsson
jónmundur guðmarsson
„Við höfum ekkert í hyggju að hækka útsvarið," segir Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness. Alþingi samþykkti rétt fyrir jól heimild til hækkunar á útsvari um 0,25 prósent, úr 13,03 prósentum í 13,28 prósent. Seltjarnarnes hefur undanfarið verið með lægsta útsvarið á höfuðborgarsvæðinu og „þótt víðar væri leitað" segir Jónmundur, eða 12,10 prósent. Seltjarnarnes hefur jafnframt lækkað útsvar tvisvar á síðustu fjórum árum.

Í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir næsta ár er gert ráð fyrir óbreyttum fasteignasköttum, engin hækkun verður á gjaldskrám og engin hækkun á útsvarinu. Seltjarnarnes hefur ekki orðið illa úti í efnahagsörðugleikunum að sögn Jónmundar.

„Við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að taka ekki lán síðustu tíu árin og nýtt tekjuafgangana vel," segir Jónmundur.

Miklir fjármunir Seltjarnarnesbæjar voru í gömlu bönkunum. Hins vegar fóru menn þar tryggari leið og voru ekki með eina einustu krónu í peningamarkaðssjóðunum heldur lögðu tekjuafgang sveitarfélagsins á venjulega bankabók með þeim afleiðingum að ekki króna tapaðist, að sögn Jónmundar. Sveitarfélagið skuldar einnig lítið, eða um 300 milljónir króna og fóru því ekki illa út úr gengishruni krónunnar, segir Jónmundur.

„Markmiðið er að bjóða óbreytt lífskjör án þess að þyngja skattbyrði íbúanna," segir Jónmundur að lokum.- vsp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×