Innlent

Námsmenn erlendis fengu fleiri krónur en þau eyddu

Nanna Hlín skrifar
Munurinn var hve mestur hjá þeim námsmönnum sem búa í evrulöndum.
Munurinn var hve mestur hjá þeim námsmönnum sem búa í evrulöndum.

Vegna falls krónunnar fengu þeir námsmenn sem leggja stund á nám erlendis fleiri krónur þegar námslán voru borguð út í júní heldur en þau eyddu yfir önnina. Þetta á við þegar námsmenn eru á fyrirframgreiddum námslánum frá bönkunum.

Garðar Stefánsson framkvæmdastjóri SÍNE bendir á að þetta getur einnig farið á hinn veginn, að námsmenn fá færri krónur en þau eyddu vegna þeirrar gengisáhættu sem fólgin er í að námslán séu greidd út eftir að maður klári önnina.

Samkvæmt upplýsingum frá Garðari er mikill meirihluti námsmanna erlendis á fyrirframgreiddum námslánum frá bönkunum. Það þýðir að námsmenn taki yfirdráttalán hjá bönkunum sem er svo borgað upp í lok annar með námslánum.

,,Við viljum leggja til að námslán verði greidd út hvern mánuði fyrir sig, eins og um laun væri að ræða. Þá værum við að lágmarka alla gengisáhættu við mánaðafrest í staðinn fyrir á fjögurra eða fimm mánaða fresti" segir Garðar. Að sögn Garðars er slíkt fyrirkomulag á hinum Norðurlöndunum og hægt væri að breyta námslánunum í skuldabréfalán ef námsmaður kláraði ekki viðunandi nám.

,,Ástæðan fyrir því að enginn setur nú uppi með hærri skuldir er sú að námslán eru greidd út íslenskum krónum eftir gengi þess dags sem þau er greitt út, þá ertu kannski að fá 917 evrur á mánuði sem er meiri peningur i júní heldur en í janúar eða febrúar" segir Garðar.

,,Námsmenn græða að því leyti að þeir fá meiri pening og skulda ekki í yfirdrátt en þeir eru náttúrulega að fá meiri lán og skulda meira. Gengisáhætta er óviðunandi hvort sem námsmenn eru að græða eða tapa."

Sigurður Eyþórsson er í kvikmyndanámi í Los Angeles í Bandaríkjunum. ,,Námið mitt er orðið mun dýrara fyrir mig núna vegna gengis krónunnar en þegar ég ákvað að fara í nám og var að reikna út hvað það myndi kosta," segir Sigurður. ,,Ég fékk ekki meiri námslán en það sem ég eyddi, síðast þegar lánin voru borguð út heldur kom ég bara út á sléttu. Vinur minn hérna úti fékk hins vegar meira. Það hefur að gera með hvernig bankarnir borga þetta út, ég fæ þetta í sömu mynt og ég nota."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×