Innlent

Umsóknarfrestur vega sérstaks saksóknara rennur út

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra.

Umsóknarfrestur vegna embættis sérstaks saksóknara sem ætlað er að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins rennur út á morgun. Ekki fengust upplýsingar um hversu margir hafa sótt um stöðuna né hvort birt verði nöfn umsækjenda.

Viðkomandi mun veita forstöðu rannsóknar- og saksóknaraembætti samkvæmt lögum sem tóku gildi 12. desember. Sama dag auglýsti dóms- og kirkjumálaráðuneytið starfið laust til umsóknar. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, mun skipa í embættið frá og með 1. janúar 2009 eða svo fljótt sem verða má, eins og segir í auglýsingu ráðuneytisins.

Umsækjendur þurfa að fullnægja skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara að því undanskildu að heimilt er að skipa einstakling eldri en 70 ára. Verði dómari skipaður í embættið skal veita honum leyfi frá störfum.

Skyldaður til að birta upplýsingar um hlutabréfaeign sína

Saksóknarinn verður skyldaður til að birta opinberlega upplýsingar um hlutabréfaeign og skuldir sínar í fjármálafyrirtækjum. Einnig um tengsl hans, maka og náinna skyldmenna við þá sem sinnt hafa stjórnunarstörfum fjármálafyrirtækja eða þeim stofnunum ríkisins sem rannsókn embættisins beinist að. Sama gildir um önnur atriði sem geta haft áhrif á hæfi saksóknarans.

Refsiverð háttsemi í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins

„Saksóknarinn mun rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar bankahrunsins, hvort sem það tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga, og eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn," segir í tilkynningu ráðuneytisins frá því 12. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×