Innlent

Ljósmæður vilja launaleiðréttingu

Ljósmæðrafélag Íslands krefst þess að ríkisstjórnin gefi samninganefnd ríkisins umboð til þess að semja við ljósmæður um launaleiðréttingu þar sem þær séu með lægri laun en allar aðrar háskólastéttir með sambærilega menntun.

Ljósmæðrafélagið ákvað að skrifa ekki undir samning sem Bandalag háskólamanna gerði við ríkið á laugardag. Það var vegna þess að samninganefnd ríkisins hafði ekki á neinn hátt komið til móts við kröfur ljósmæðra eftir því sem segir í tilkynningu frá Ljósmæðrafélaginu.

Þar segir einnig að menntunarkröfur til ljósmæðra séu sex ára háskólamenntun sem ljúki með embættisprófi á meistarastigi. Þær séu hins vegar með lægri laun hjá ríkinu en allar aðrar háskólamenntaðar stéttir með sambærilega menntun. Bent er á að nýliðun í stéttinni standi ekki undir því brottfalli sem verði næstu tíu árin þar sem 44 prósent starfandi ljósmæðra fari á eftirlaun innan þess tíma.

„Ekki verður staðið undir ljósmæðraþjónustu í landinu nema allar ljósmæður fáist til starfa í framtíðinni. Það mun ekki gerast nema laun ljósmæðra verði leiðrétt miðað við laun stétta með sambærilega menntun í þjónustu ríkisins. Félagsfundur Ljósmæðrafélags Íslands krefst þess að ríkisstjórn Íslands gefi samninganefnd ríkisins umboð til að semja við ljósmæður um þessa launaleiðréttingu svo tryggja megi áfram góða ljósmæðraþjónustu hér á landi," segir í tilkynningu Ljósmæðrafélags Íslands.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×