Innlent

Staðfest gæsluvarðhald yfir hústökufólki

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karli og konu sem grunuð eru um hústöku og innbrot á nokkrum stöðum á Norðurlandi.

Lögreglan á Akureyri handtók fólkið á föstudag vegna gruns um bílþjófnað. Þau eru einnig sögð hafa brotist inn í hús á Akureyri og hafst þar við í einhvern tíma. Þá telur lögregla að þau hafi brotist inn í sumarbústað á Svalbarðs­strönd og fleiri bústaði en fólkið neitar því. Þá virðist liggja fyrir að fólkið tekið fjórhjól ófrjálsri hendi. Á palli þess var nokkuð magn af DVD myndum, sem lögreglu grunar að sé þýfi.

Í kröfu sýslumanns er tekið fram að fólkið hafi dvalið hér á Norðurlandi í 4-5 vikur án þess að hafa fastan samastað og án atvinnu. Kvartað hafi verið undan þeim og þeim vísað út úr verslunum vegna gruns um þjófnaði. Gæsluvarðhaldið yfir karlinum og konunni rennur út á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×