Erlent

Segir brunann í Björgvin í Noregi vera þjóðarharmleik

Þjóðminjavörður í Noregi kallar bruna í Björgvin í nótt þjóðarharmleik. Mannbjörg varð en friðuð timburhús brunnu til grunna.

 

Slökkvilið kom að eldhafinu um klukkan hálf fimm í nótt, að norskum tíma, og fékk ekki við neitt ráðið. Vatni var dælt úr öllum áttum á logandi tréhúsin, meðal annars af sjó. Af tólf manns sem flúðu út úr húsunum fóru sjö með báti.

 

 

Skútuvíkurbúðirnar svokölluðu voru frá sautjándu öld, hjartað í alþjóðlegum viðskiptum með norska skreið. Norski þjóðminjavörðurinn segir að húsin hafi verið þjóðargersemar sem nú séu glataðar. Fimm hús urðu eldinum að bráð, þar af tvö sem nú eru rjúkandi rúst.

 

Ekki er ljóst hvernig eldurinn kviknaði en þjóðminjayfirvöld hafa lengi kvartað undan ónægum brunavörnum. Meðal þess sem glataðist í eldinum voru tæki og tól um fjörtíu hljómsveita sem þarna höfðu aðsetur. Þau voru ótryggð en verður samt hægt að bæta - nokkuð sem ekki verður sagt um 350 ára gömul timburhúsin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×