Skoðun

Yfirtók ríkið gömlu bankana?

Ástráður Haraldsson skrifar

Ástráður Haraldsson skrifar um fall bankanna

Fall bankanna lagði próf fyrir stjórnvöld. Hvernig tekst að leysa úr ræður miklu um hvernig okkur reiðir af á næstu árum. Affarasælast er frammi fyrir erfiðum verkefnum að halda haus og vinna af einurð og heiðarleika. Það sem átti að gera var einfaldlega að segja satt og fara að lögum. Verkar ekki flókið. Líklega falla stjórnvöld samt á prófinu. Í stað þess að fara að lögum hafa þau keppst við að hanna undanþágur frá lögum. Alþingi hefur haft það hlutverk að ljá undanþágunum formlegt lagagildi. Útaf þessu varð Icesave að óleysanlegu vandamáli. Útaf þessu gæti stofnast til ótakmarkaðrar ábyrgðar ríkisins á skuldum bankanna.

Yfirtaka FME á stjórnun bankanna varð við aðstæður sem að lögum þýddu að þeir voru gjaldþrota. Þá bar að taka bú þeirra til gjaldþrotaskipta. Þetta var ekki gert og sýnist ekki standa til. FME skipaði nýjar stjórnir og kaus að kalla þær skilanefndir. Það heiti er villandi. Þetta eru nýjar stjórnir félaganna en ekki skilanefndir í skilningi laga.

Nú hafa tveir bankanna fengið „greiðslustöðvun". Ekki þó í skilningi gjaldþrotalaga. Til þess uppfylla þeir ekki lagaskilyrði. Greiðslustöðvunin er á grundvelli nýsettra laga um að slík heimild skuli veitt að kröfu FME þótt skilyrði sem fram að þessu hafa gilt um greiðslustöðvun séu ekki til staðar. Sömu lög banna lögsóknir á hendur bönkunum. Ekki hvarflar að mér að þetta standist. Dómstólar munu ekki telja þessa reglu hafa lagagildi og dæma án tillits til hennar.

Það sem er hættulegt við vegferð FME með gömlu bankana er að málið er rekið á lögfræðilegu einskismannslandi sem m.a. leiðir til þess að margir standa í þeirri trú að ríkið eigi nú gömlu bankana.

Hefur ríkið yfirtekið gömlu bankana? Stóð það til? Ég held ekki. Haldi fram sem horfir er hætta á að þetta verði eigi að síður niðurstaðan. Að stjórnvöld með framgöngu sinni stofni til ótakmarkaðrar ábyrgðar á skuldbindingum gömlu bankanna. Í taugaveiklun og ógáti.

Hættum nú þessu rugli. Segjum satt og förum að lögum. Það er alltaf best.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og dósent við Háskólann á Bifröst.






Skoðun

Sjá meira


×